Erlent

Khodorkovskí-dóms beðið enn

Uppkvaðningu dómsins yfir rússneska auðjöfrinum Mikhaíl Khodorkovskí var fram haldið í Moskvu í gær, en dómhaldi aftur frestað án þess að dómsúrskurðurinn sjálfur væri kveðinn upp. Dómsuppkvaðningin hófst á mánudag. Þótt orðalag þess hluta dómsins sem fram er kominn bendi sterklega til þess að Khodorkovskí verði sakfelldur töldu verjendur hans sig merkja vísbendingar í textanum um að búast mætti við því að refsingin yrði mildari en sá tíu ára fangelsisdómur sem ákæruvaldið hefur krafist. Meðal helstu ákæruatriða er að Khodorkovskí hafi gerst sekur um stórfelld skattsvik. Réttarhaldið yfir Khodorkovskí - sem var aðaleigandi og forstjóri Yukos-olíufyrirtækisins - hefur grafið undan orðstír rússnesks réttarkerfis og skaðað traust erlendra fjárfesta á rússnesku viðskiptalífi. Tiltölulega mildur dómur kann að verða túlkaður sem tilraun af hálfu yfirvalda til að hrekja gagnrýni erlendis frá á pólitísk afskipti af málinu og til að endurheimta traust fjárfesta. Stjórnmálaskýrendur halda því fram að skyndileg handtaka Khodorkovskís í október 2003 hafi verið hefnd Vladimírs Pútíns forseta fyrir stuðning auðjöfursins við stjórnarandstöðuflokka - en þar með hefði hann brotið óskrifað samkomulag um að stjórnvöld leyfðu auðjöfrum landsins að hafa sitt misjafnlega fengna ríkidæmi í friði svo lengi sem þeir skiptu sér ekki af stjórnmálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×