Innlent

Veitingasala ekki niðurgreidd

"Reykjavíkurborg hefur aldrei niðurgreitt veitingahúsarekstur í Viðey," segir Steinar Davíðsson, sem rak veitingasölu í Viðeyjarstofu frá 1997 þar til í vor. "Við borguðum árlega þrjár til fimm milljónir í húsaleigu til Reykjavíkurborgar og fengum ekki krónu þaðan inn í reksturinn, hvorki með beinum né óbeinum hætti." Hann segir að leigufjárhæðin hafi samkvæmt samningum verið hlutfall af veltu staðarins. Reksturinn hafi borið sig ágætlega fram til ársins 2003 þegar halla fór undan fæti vegna færri gesta í eynni. Steinar segir breytinguna hafa orðið þegar séra Þórir Stephensen hætti sem staðarhaldari í Viðey, en þá var Árbæjarsafni falið að taka við umsjón eyjarinnar. Fyrir þá tíð hafi alltaf verið náið samstarf milli staðarhaldarans, ferjunnar og veitingasölunnar og þeir hafi allir starfað saman að því að fjölga gestum. "Strax eftir að Þórir hættir förum við á fund hjá Árbæjarsafni og þá vill safnið taka ársfrest til að kynna sér hvernig staðan er." Steinar gefur ekki mikið fyrir þessi vinnubrögð. "Í þessum rekstri þarf maður alltaf að vera vakandi og ef maður er ekki vakandi þá gerist ekki neitt." Hann segir að árlega hafi farið nokkrar milljónir í auglýsingar hjá sér en hann hafi engar auglýsingar séð um Viðey í allt sumar. Tölur yfir gesta fjölda sem rekstraraðilar Viðeyjaferju tóku saman fyrir Fréttablaðið renna stoðum undir það að gestum hafi farið fækkandi löngu áður en rekstrarhliðin á eynni var tekin til endurskoðunar af Reykjavíkurborg í vor. Gestum hafði fjölgað hægt og bítandi fram til ársins 2000 en séra Þórir hættir það ár. Síðan þá hefur leiðin legið niður á við og í sumar hefur gestafjöldinn aðeins verið um 80 prósent af gesta fjölda síðasta árs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×