Innlent

Fara fram á opinbera rannsókn

Mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar fara fram á opinbera rannsókn á aðgerðum lögreglu í sinn garð. Þeir saka lögreglu um að beita andlegu og líkamlegu ofbeldi. Andstæðingar stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi hafa haft sig mikið í frammi í sumar, og ítrekað verið handteknir. Þeir hafa komist í fréttir meðal annars fyrir að sletta skyri á álforstjóra, hlekkja sig við vinnuvélar, klifra upp í byggingarkrana og síðast var einn úr þeirra hópi handtekinn, grunaður um hafa krotað á Alþingishúsið og styttu Jóns Sigurðssonar. Þeir sem skipulögðu mótmælabúðirnar við Kárahnjúka þvo af sér slítk verk og segja eignaspjöll, sem þeim hafa verið eignuð, ekki lið í þeirra baráttu. Þeir hafa nú ráðið sér lögfræðing; í fyrsta lagi til að koma í veg fyrir brottvísun erlendra mótmælenda úr landi, sem myndi þýða að þeim yrði meinað að koma aftur til landsins næstu þrjú ár. Í öðru lagi vilja þeir opinbera rannsókn á aðgerðum lögreglu. Birgitta Jónsdóttir, talsmaður mótmælenda, segir að þeim finnist aðgerðir lögreglunnar óeðlilegar og hún segir þau hafa sætt bæði andlegu og líkammlegu ofbeldi. Þeim hafi til dæmis verið neitað um mat og vatn. Ein stúlka með blóðsykurvandamál varð alvarlega veik eftir að henni var neitað um brauð. Þau vilja að málin séu skoðuð t.d. að þeim sé veitt eftirför í borginni fyrir það eitt að segjast ætla að mótmæla. Þeim finnst aðfarirnar byggðar á hæpnum forsendum.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×