Erlent

Rekinn vegna spillingar

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, rak í gær háttsettan embættismann samtakanna fyrir misferli í tengslum við olíusöluáætlun þeirra til Íraks. Hann er sá fyrsti sem fær reisupassann vegna spillingar í tengslum við áætlunina en búist er við að fleiri fylgi í kjölfarið. Joseph Stephanides, kýpverskur starfsmaður SÞ til margra ára, er sagður hafa hyglað bresku fyrirtæki og hagnast umtalsvert þegar boðin voru út verk í tengslum við eftirlit með innflutningi hjálpargagna til Íraks. Stephanides kveðst alsaklaus og hyggst áfrýja ákvörðuninni. Ásakanir um spillingu Stephanides koma upphaflega úr skýrslu Paul Volcker, stjórnarformanns bandaríska seðlabankans, um olíusöluáætlunina en þar er þáttur Kofi Annan, sem stýrði áætluninni, jafnframt skoðaður. Hann þykir ekki hafa hreinsað sig með sannfærandi hætti af spillingaráburði þótt hann hafi ekki verið ásakaður berum orðum. Olíusöluáætlun Sameinuðu þjóðanna var í gildi á árunum 1996-2003 og var henni ætlað að lina þjáningar írösku þjóðarinnar með því að heimila henni að selja olíu fyrir mat og lyf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×