Erlent

Aðgerð á hafmeyjubarni vel heppnuð

Læknar skildu að fullu fótleggi stúlkubarns sem þjáðist af hafmeyjuheilkenninu svokallaða í aðgerð í Perú í fyrradag. Þeir sögðu að henni lokinni að hún hefði heppnast framar vonum. Lýtalæknar, barnalæknar og hjartalæknar tóku þátt í þessari flóknu aðgerð. Hafmeyjuheilkennið er sjaldgæfur erfðagalli sem lýsir sér á þann hátt að á fósturstigi vaxa fótleggir barnsins saman í stað þess að þroskast sjálfstætt. Aðgerðin tók hálfan fimmta tíma en upphaflega stóð til að skilja fætur stúlkunnar að upp að hnjám í þessari fyrstu atrennu. Hins vegar gekk aðgerðin það vel að fæturnir voru skildir að að fullu. Atburðurinn var sýndur í beinni sjónvarpsútsendingu í Perú. Stúlkan litla getur nú hreyft bæði hnéin á eðlilegan hátt. Hún var á sínum tíma skírð Milagros sem þýðir kraftaverk og segja foreldrar hennar að nú beri hún sannarlega nafn með rentu. Þeir þakka himnaföðurnum fyrir miskunnsemi og eru vissir um að hann hafi vakað yfir litla kraftaverkinu þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×