Söngdívurnar sjö sem skipa Frostrósir falla landanum greinilega vel í geð því það eru einungis fimm hundruð miðar eftir á aukatónleika þeirra í Laugardagshöll sem fram fara 10. desember. Upphaflega var gert ráð fyrir að einungis yrði um eina tónleika að ræða en ásóknin var slík að brugðið var á það ráð að bæta við einum tónleikum sem verða fyrr um daginn.
Frostrósir hafa haldið jólatónleika undanfarin þrjú ár en nú er þetta í síðasta skipti sem þeir verða haldnir í þessari mynd. Er því engu til sparað og á að klæða Höllina í sitt allra fínasta. Auk söngkvenanna sjö verða á sviðinu 150 manna karlakór og 25 manna hljómsveit en þeir Bjarni Arason, Leone Tinganelli og Gunnar Guðbjörnsson munu einnig heiðra gesti með nærveru sinni.