Erlent

Hjálparstarfið í hættu

Sameinuðu Þjóðirnar þurfa að skera verulega niður hjálparstarf á hamfarasvæðunum í Pakistan ef ekki berst meira fjármagn strax á næstu dögum.

Yfirmaður Sameinuðu Þjóðanna á hamfarasvæðunum segir að nú þegar þurfi hjálparstarfsmenn að treysta algjörlega á herinn í Pakistan til þess að ná til fólksins á afskekktustu svæðunum. Sárlega skorti ýmsan búnað og starfseminni á jarðskjálftasvæðunum verði ekki haldið áfram með góðu móti ef ekki berist fjármagn strax. Hann segir að ef ekki berist gögn til hjálparstarfs við hinar hörðu aðstæður hið allra fyrsta, neyðist Sameinuðu Þjóðirnar til að skera starfsemi sína á hamfarasvæðunum verulega niður mjög fljótlega.

Veturinn í Pakistan er enn að harðna og nú berast fréttir af því að flest tjaldanna sem hafa borist á svæðin séu ónothæf í þeim miklu vetrarhörkum sem eru framundan. Undanfarna daga hafa Sameinuðu þjóðirnar sagt að fjölmörg tjöld vanti, en nú er ljóst að það þurfa í flestum tilvikum að vera öðruvísi tjöld en þau sem þegar hafa borist.

Fæst af þeim tjöldum sem send hafa verið til hamfarasvæðanna í Pakistan standast vetrarveður og áhersla er nú lögð á aðrar leiðir til að hlýja nauðstöddum í vetur.

Enn er ekki vitað til þess að fleiri en átta hafi látist, en hins vegar streyma fórnarlömb á spítala við hamfarasvæðin, með alls kyns kvilla sem rekja má beint til kuldanna. Meira en þúsund manns liggja alvarlega veikir og mörgum er ekki hugað líf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×