Erlent

Þrýsta á um svör við fangaflugsásökunum

Þingnefnd á Evrópuþinginu gagnrýndi í gær ríkisstjórnir Evrópusambandsríkja harkalega fyrir að bregðast ekki með fullnægjandi hætti við upplýsingum sem fram hefðu komið um starfsemi bandarísku leyniþjónustunnar CIA á evrópskri grundu.

Í ályktun sem samþykkt var í borgararéttindanefnd þingsins segir að ásakanir um að CIA reki leynifangelsi í Austur-Evrópu og fljúgi með fanga fram og aftur um evrópska lofthelgi og flugvelli séu nú "ekki véfengdar". "Ég er alls ekki sannfærð um að það sé verið að gera nóg af hálfu stjórnvalda aðildarríkjanna til að komast til botns í þessu og finna hvað satt er," sagði Sarah Ludford, meðlimur nefndarinnar úr Frjálslynda demókrataflokknum í Bretlandi.

"Við höfum nú fullnægjandi sönnunargögn um flug á vegum CIA. Nú verðum við að fá að vita hverjir voru um borð í þessum flugvélum og hvert þær fóru," sagði hún. Á þriðjudag sendi breska stjórnin, sem gegnir formennskunni í ESB þetta misserið, stjórnvöldum í Washington bréf þar sem bent er á þær áhyggjur sem ásakanir um þessa meintu starfsemi CIA hafa valdið í Evrópu og kurteislega farið fram á skýringar.

Fátt hefur verið um svör frá ráðamönnum vestanhafs fram til þessa. Sean McCormack, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, vildi á miðvikudag hvorki játa því né neita hvort ásakanirnar ættu við rök að styðjast. Hann vildi heldur ekki svara því hvort svörin sem Evrópumenn myndu fá við spurningum sínum yrðu til að skýra málið til fullnustu. Condoleezza Rice utanríkisráðherra heimsækir nokkrar höfuðborgir í Evrópu í næstu viku og víst þykir að þá komist hún ekki undan því að gefa einhver svör.

Breska blaðið The Guardian greindi frá því í gær að í ljós væri komið að meintar CIA-flugvélar hefðu átt viðkomu á evrópskum flugvöllum mun oftar en talið hefði verið fram til þessa. Blaðið hefði heimildir fyrir því að þessi flug hefðu verið fleiri en 300 síðan árið 2002. Getum hefur verið leitt að því að slíkar vélar hafi millilent yfir 60 sinnum á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×