Innlent

Ljósmyndarar semja við ráðuneyti vegna vegabréfa

MYND/Teitur

Ljósmyndarafélag Íslands hefur náð samkomulagi við dómsmálaráðuneytið um að fá áfram að taka myndir fyrir vegabréf, en til stóð að flytja slíka myndatöku alfarið til sýslumannsembættanna. Leyfi ljósmyndaranna er þó háð nokkrum skilyrðum um öryggi myndanna.

Alþjóðaflugmálastofnunin hefur í nafni vaxandi hryðjuverkahættu gert auknar öryggiskröfur í fólksflutningum á heimsvísu en liður í því er útgáfa nýrra rafrænna vegabréfa sem meðal annars eiga að innihalda lífkenni og fingraför. Þar er gert ráð fyrir að passamyndataka verði í höndum yfirvalda og því ákvað dómsmálaráðuneytið að koma upp aðstöðu til myndatöku á sýslumannsskrifstofum.

Þessu mótmætu ljósmyndarar og töldu gengið inn á verksvið sitt. Þeir hafa nú komist að samkomulagi við ráðuneytið um að áfram megi nota myndir frá þeim í vegabréf að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þær þurfi að hafa ákveðna lýsingu og myndbyggingin þurfi að vera sérstök auk þess sem þær þurfi að vera samanburðarhæfar hjá embættinu.

Gunnar segir að Ljósmyndarafélagið muni aðstoða ráðuneytið sem fagaðili við að koma upp aðstöðu til myndatöku og setja skilyrði. Hann segir aðspurður að breytingarnar feli ekki sér aukinn kostnað fyrir ljósmyndara. Þeir hafi á undanförnum árum fjárfest í þeim stafræna búnaði sem til þurfi til að uppfylla skilyrði ráðuneytisins. Hins vegar væri sárt að sjá allar myndatökur af fólki fara frá ljósmyndurum. Þeir kunni, viti og geti og geri þetta manna best.

Þá bendir Gunnar einnig á að ljósmyndarar geymi allar myndir og því geti viðskiptavinir þeirra alltaf nálgast þær þar en slíku sé ekki að dreifa hjá sýslumanni.

Undirbúningur að þessum breytingum er þegar hafinn og er stefnt að því að þær verði um garð gengnar um mitt næsta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×