Sport

Vill ekki að Cech bæti metið

"Ég hef átt þetta met í mörg ár. Ég er mjög stoltur af því og mig dauðlangar að halda því," segir Abel Resino, fyrrverandi markvörður Atletico Madrid og sá markvörður sem flestar mínútur hefur leikið án þess að fá á sig mark. Resino fékk ekki á sig mark með Atletico í ótrúlegar 1275 mínútur á sínum tíma og þarf Petr Cech, hinn tékkneski markvörður Chelsea, ekki að spila nema sjö hálfleiki til viðbótar án þess að fá á sig mark til að slá metið - eða nákvæmlega 315 mínútur. Cech heggur nærri metinu með hverri mínútu sem hann spilar en hann hefur nú haldið hreinu í síðustu 10 deildarleikjum Chelsea og hefur ásamt vörn liðsins náð að mynda það sem að því er virðist vera ókleifur múr. "Cech er frábær markvörður með frábæra vörn fyrir framan sig. En hvort þetta sé besta vörn í heimi læt ég nú liggja milli hluta," segir Resino með hrokann að vopni. Hann kveðst þó ekki munu verða bitur fari svo að Cech slái metið. "Met eru skráð til þess að þau séu brotin. Ég mun óska honum til hamingju ef hann nær því en ég minni á að aðrir markmenn hafa komist nálægt metinu en mistekist á endanum. Ég óska honum alls hins besta en ég vona að honum mistakist líka. Ég vil eiga þetta met áfram," segir Resino sem augljóslega leggur mikið upp úr athyglinni sem fylgir því að vera í heimsmetabókunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×