Erlent

Breskur her ekki heim frá Írak

Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, varaði í ræðu á flokksþingi breska Verkamannaflokksins í gær við því að framundan væru fleiri "myrk augnablik" í Írak. En hann ítrekaði yfirlýsingu forsætisráðherrans Tony Blair frá því daginn áður um að útilokað væri að breska herliðið í Írak yrði kallað heim í bráð. "Að byggja upp nýtt ríki hefur aldrei verið auðvelt," sagði Straw og tók þannig undir orð Blairs um að það væri skylda Breta að verja lýðræðið í Írak. Straw tók einnig fram að það væri "óhugsandi" að beita hernaði gegn Íran til að fá þarlend stjórnvöld til að hverfa frá meintri kjarnorkuvígbúnaðaráætlun sinni. Í ræðu sinni í fyrradag sýndi Blair heldur ekkert fararsnið á sér, það er hann gaf engar vísbendingar um hvenær hann hygðist víkja úr forsætisráðherrastólnum. Blair lýsti metnaðarfullri stefnuskrá ríkisstjórnarinnar á þessu þriðja kjörtímabili hennar undir hans stjórn. Virtist hann með þessu vonast til að sá armur flokksins, sem þrýst hefur á um að hann viki sæti fyrir Gordon Brown innan tíðar, hefði sig hægan. Blair er í mun að tryggja að stjórnartíðar sinnar verði minnst fyrir önnur og uppbyggilegri mál en Íraksmálið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×