Innlent

Blekkingar í auglýsingum

Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri.
Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri.
Verslanir sem auglýsa að þær felli niður virðisaukaskattinn af vörum sínum eru að vissu leyti að blekkja viðskiptavini sína segir Ríkisskattstjóri.

Undanfarin misseri hafa verslanir í auknum mæli kosið að lýsa tilboðsdögum sínum sem svo að þær felli niður virðisaukaskattinn af vörum sínum frekar en að viðskiptavinir fái tuttugu prósenta afslátt af vörunum. Í sumum auglýsingum hið minnsta, hefur þó verið tilgreint með minna letri að virðisaukaskattur sé eftir sem áður greiddur af vörunum en verðið lækkað um tuttugu prósent. Hagkaup eru meðal þeirra sem hafa gert þetta í mestum mæli en fleiri verslanir hafa beitt sömu aðferðum.

Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri segist ekki vita til þess að nokkur verslun hafi sótt um undanþágu frá því að innheimta virðisaukaskatt. "Staðreyndin er sú að þessi heimild er ekki fyrir hendi og auglýsingar í þessu formi eru auðvitað viss blekking. Auglýsendur eru í raun og veru að segja að álagning þeirra sé það rífleg að þeir geti lækkað hana án þess að tapa en kjósa af einhverjum ástæðum að láta líta út fyrir að þeir séu að spara fólki að borga skattinn," segir Indriði.

En hvaða áhrif geta þessar auglýsingar haft? Og getur verið að með þeim sé verið að höfða til þess að mörgum þykir sjálfsagt að svíkja undan skatti? "Ég skal ekki segja hvað býr að baki hjá þeim," segir Indriði. "Óneitanlega ber það keim af einhverju slíku. Af einhverjum ástæðum telja þeir vænlegra að láta líta svo út að fólk komist hjá því að greiða skattinn en að þeir séu að slá af sinni álagningu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×