Erlent

Vandræði Merkel strax hafin

Angela Merkel er ekki einu sinni orðin kanslari - formlega séð - en vandræðin eru strax byrjuð. Verðandi samstarfsflokkurinn, jafnaðarmannaflokkurinn, grefur undir henni og systurflokkurinn í Bæjaralandi, undir leiðsögn Edmunds Stoiber, gerir slíkt hið sama. Angela Merkel var ekki sigri hrósandi þegar hún greindi frá því í gær að hún myndi leiða nýja ríkisstjórn sem kanslari og kannski var það vegna þess að hún hafði á tilfinningunni hvað væri í vændum. Nú hafa bæði talsmenn jafnaðarmanna og flokksformaður CSU, systurflokks kristilegra demókrata í Bæjaralandi, lýst þeirri skoðun sinni að kanslari í samsteypustjórn stóru flokkanna hafi ekki sömu völd og kanslarinn hefur í hefðbundinni stjórn. Það verði því ekki hlutverk Angelu Merkel að leggja línurnar, eins og venjan er, heldur verði það hlutverk flokksformanna og formanna þingflokka að setjast saman og útkljá þau mál. Ekki er víst að Merkel sjái málið í sama ljósi og karlarnir sem lýst hafa þessari skoðun sinni og virðist sem hún eigi ærið starf framundan við að setja saman starfhæfa stjórn og halda aga á mannskapnum í þokkabót. Fyrstu kannanir sem gerðar eru á skoðunum Þjóðverja á nýja stjórnarmynstrinu eru komnar út. Fimmtíu og fjögur prósent aðspurðra eru á því að samsteypustjórnin geti leyst þau vandamál sem blasa við en þrjátíu og sjö prósent eru á því að nýja stjórnin hafi stöðnun í för með sér. Sjötíu og fimm prósent aðspurðra sögðu stjórnina neyðarlausn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×