Erlent

Lögregla ásökuð um gripdeildir

Talsmenn lögreglunnar í New Orleans greindu frá því í gær að hafin væri rannsókn á því hvað hæft væri í ásökunum um að á annan tug lögreglumanna hefðu sjálfir gerst sekir um þátttöku í gripdeildum í ringulreiðinni í kjölfar fellibylsins Katrínar. "Af 1750 lögreglumönnum erum við að kanna hvort um það bil tólf hafi verið viðriðnir slík brot," sagði Marlon Delfino, talsmaður lögreglunnar. Fyrr í vikunni sagði lögreglustjórinn, Eddie Compass, af sér, en á honum hafði dunið gagnrýni vegna slælegrar frammistöðu lögreglunnar á meðan Katrín gekk yfir og í kjölfar hennar. Boðað hefur verið að um 250 lögreglumenn verði kærðir eða áminntir fyrir að hafa hlaupist undan skyldustörfum. Fyrstu íbúar New Orleans sem fengu að snúa aftur heim streymdu til borgarinnar í gær, samkvæmt boði borgarstjórans Ray Nagin, en það voru allt fyrirtækjaeigendur í þeim hverfum borgarinnar þar sem öllu er nú talið óhætt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×