Erlent

Wolfgang snýr aftur á flokksþing

Walter Wolfgang, öldungurinn sem var hent út af þingi Verkamannaflokksins í Bretlandi í gær fyrir að grípa frammi í fyrir Jack Straw utanríkisráðherra, mætti aftur sigurreifur á ráðstefnuna í dag eftir að bæði Verkamannaflokkurinn og Tony Blair höfðu beðið hann afsökunar. Wolfgang, sem er 82 ára, var hent út af þinginu eftir að hann greip frammi fyrir Straw þegar hann var að verja innrásina í Írak og sagði orð ráðherrans kjaftæði. Eftir að nokkrir háttsettir menn innan Verkamannaflokksins höfðu gagnrýnt öryggisverði fyrir of harkaleg viðbrögð var ákveðið að hleypa Wolfgang aftur inn á þingið og var honum ákaft fagnað þegar hann sneri aftur. Sjálfur var Wolfgang við sama heygarðshornið og sagði að lítil mistök hefðu verið leiðrétt en það væri ólíkt stóru mistökunum sem Bretar hefðu gert með innrásinni í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×