Innlent

Skaftafellsjökull hefur hopað um 97 metra síðastliðið ár

Mynd/Vísir

Skaftafellsjökull hefur hopað um 97 metra síðastliðið ár samkvæmt mælingum. Aðrir jöklar í Öræfasveit hafa ekki hopað jafn mikið en þó má almennt segja að íslenskir jöklar séu að hopa.

Guðlaugur Gunnarsson, fyrrum bóndi á Svínafelli í Öræfasveit, hefur mælt hop og skrið jökla í nágrenni Skaftafells og Svínafells í Öræfum síðan árið 1947. Hann segist sjá miklar breytingar á jöklunum síðan hann hóf mælingar en á síðasta ár hopaði Skaftafellsjökull um 97 metra. Þá hefur Svínafellsjökull hopað um 25 metra og Falljökull um níu metra á síðasta ári samkvæmt mælingum Guðlaugs.

Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur á vatnamælingadeild Orkustofnunnar, segir jökla almennt vera hopa mikið í Evrópu og sömuleiðis á Íslandi. Þegar mikil hlýindatímabil verði á Íslandi líkt og frá árunum 2002 til 2004 þá hopi jöklarnir mjög mikið.

Nokkrar sveiflur eru á stærð Skaftafellsjökuls en frá árinu 1940 til 1997 hopaði jökullinn um alls 800 metra. Hann skreið svo nokkuð fram til 1997 en síðan þá hefur hann verið að hopa enn hraðara en áður að sögn Odds. Við þessar breytingar kemur oft nýtt landslag í ljós, sem ekki hefur verið sýnilegt í mörg hundruðir ára. Oddur segir ýmislegt áhugavert geti komið undan jöklum. Þá gætu vísbendingar um mannvistaleyfar komið undan Breiðamerkurjökli í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×