Erlent

Farþegalistasamningur ógildur að mati ESB

Farþegaeftirlit Ferðalangur gengur hjá þungvopnuðum landamæravörðum  í New York. Verði samningur um upplýsingagjöf um farþega evrópskra flugfélaga til bandarískra yfirvalda dæmdur ógildur gæti það valdið flugfélögunum vandræðum vestra.
Farþegaeftirlit Ferðalangur gengur hjá þungvopnuðum landamæravörðum í New York. Verði samningur um upplýsingagjöf um farþega evrópskra flugfélaga til bandarískra yfirvalda dæmdur ógildur gæti það valdið flugfélögunum vandræðum vestra.

Samkomulag stjórnvalda í Evrópuríkjum, Íslands þar á meðal, við Bandaríkjastjórn um að bandarískum hryðjuverkavarnayfirvöldum skuli afhentir farþegalistar flugfélaga sem fljúga vestur um haf, er ólöglegt. Að þessari niðurstöðu hefur einn æðsti lögfræðiráðgjafi Evrópusambandsins komist.

Philippe Leger, yfirlögmaður við Evrópudómstólinn í Lúxemborg, tilkynnti um þessa niðurstöðu sína í gær, en með henni tekur hann afstöðu með Evrópuþinginu, sem hafði vísað málinu til dómstólsins. Að lögmaðurinn skuli hafa komist að þessari niðurstöðu þykir auka mjög líkurnar á því að dómstóllinn geri það líka þegar hann fellir sinn úrskurð í málinu, en hans er vænst eftir áramót.

Dómstóllinn hefur farið að ráðum lögmannsins í átta af hverjum tíu málum sem hann hefur sagt álit sitt á. Ógildi dómstóllinn samkomulagið yrði að semja upp á nýtt og í millitíðinni gætu evrópsk flugfélög, íslensk þar á meðal, lent í vandræðum með lendingarheimildir í Bandaríkjunum. Samkomulagið var gert í maí 2004 og átti að gilda til 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×