Innlent

Herinn með rétta búnaðinn

Davíð Á. Gunnarsson stjórnarmaður í Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins.
Davíð Á. Gunnarsson stjórnarmaður í Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins.

Eyðileggingin og hörmungarnar sem flóðbylgjan skildi eftir sig voru svo miklar að jafnvel öflug hjálparsamtök hefðu átt í erfiðleikum með að bjarga fólki þar fyrstu dagana. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mat ástandið svo að einungis her hefði verið í stakk búinn til að takast á við afleiðingarnar. Þetta segir Davíð Á. Gunnarsson, stjórnarmaður Alþjóðaheilbrigðiseftirlitsins (WHO) og ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu.

"Njósnaflugvélar, njósnagervitungl og annan búnað sem her hefur yfir að ráða þurfti til að finna svæðin sem voru hjálparþurfi." Davíð fylgdist með björgunarstörfum í Asíu frá fyrsta degi enda var hann á þeim tíma stjórnarformaður stofnunarinnar. Hann var í stöðugu sambandi við starfsmann hennar, David Nabarrov, sem var kominn til starfa sólarhring eftir að flóðbylgjan skall á landi.

"Það fyrsta sem hann sagði við mig þegar ég talaði við hann var að hann væri búinn að kynna sér aðstæður og það væri alveg ljóst að enginn gæti tekið á aðstæðunum nema her stórrar þjóðar. Hann ætti við Bandaríkin. Engin stofnun, engin hjálparsamtök hefðu það bolmagn sem til þyfti." Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hélt ráðstefnu um gang hjálparstarfsins í Suðaustur-Asíu á Phuket í Taílandi í apríl.

"Á ráðstefnuni skynjaði maður að Taílendingarnir voru nokkuð gagnrýnir á sjálfa sig og hvernig þeirra eigin hjálparlið hefði staðið sig. Fulltrúar erlendra þjóða og stofnanna sem sóttu ráðstefnuna töldu að þeir hefðu staðið sig afburðavel," segir Davíð. Ráðstefnugestir ferðuðast um Phuket en fóru einnig norður fyrir þessa vinsælu ferðamannaeyju. "Þar heimsóttum við tvær flóttamannabúðir sem stóðu við rústir þorpa, þó ekki hefði verið hægt að sjá að þar hafi staðið þorp."

Þrátt fyrir að Aceh-hérað á Norður-Súmötru í Indó­nesíu hafi farið verst út úr hörmungunum megi eins finna svæði í Taílandi sem hafi nánast horfið. Davíð segist oft hugsa um það sem hann upplifði þessa daga í apríl. "Ég held að ég hafi fátt gert um ævina sem eigi eftir að sitja jafn lengi í mér og þessi ferð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×