Erlent

Sækist eftir stuðningi Evrópu

Lýðræðisþróun var lykilatriðið í málflutningi George W. Bush Bandaríkjaforseta í gær, á fyrsta degi ferðalags hans um Evrópu. Hann sækir heim þjóðarleiðtoga og áhrifamenn til að treysta tengsl Evrópu og Bandaríkjanna og sækja stuðning Evrópuríkja við aðgerðir Bandaríkjanna í Írak. Annað meginatriðið í málflutningi forsetans var friður fyrir botni Miðjarðarhafs. Bush sagði nauðsynlegt fyrir Vesturlönd að koma á friði í Mið-Austurlöndum. Hann hét stuðningi við friðarviðræður Ísraela og Palestínumanna. "Stærsta tækifæri okkar og helsta markmið núna er friður í Mið-Austurlöndum," sagði Bush. Hann skoraði einnig á Sýrlendinga að hætta afskiptum af málefnum Líbanons og láta heimamönnum eftir stjórn lands síns. Bandaríkjaforseti hvatti til þess að lýðræði yrði styrkt í nokkrum löndum, þeirra á meðal Rússlandi og Egyptalandi. "Við verðum að minna Rússa á að bandalag okkar byggir á frjálsum fjölmiðlum, þróttmikilli stjórnarandstöðu, valddreifingu og réttarríki," sagði George W. Bush og vísaði til samstarfs Bandaríkjanna og Evrópuríkja. Rússnesk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að draga úr valddreifingu. Bandaríkjamenn vilja að fleiri ríki komi að því að tryggja öryggi í Írak. "Sumar Evrópuþjóðir tóku þátt í baráttunni fyrir því að frelsa Írak, aðrar ekki," sagði Bush. "Nú er það hagur allra þjóða að takast megi að koma á frjálsu og lýðræðislegu ríki í Írak, sem berst gegn hryðjuverkum, fyrirmynd frelsis og uppspretta raunverulegs stöðugleika á svæðinu." Í dag funda leiðtogar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í Brussel. Þar er búist við að öll ríki samþykki að leggja eitthvað til þjálfunar íraskra herforingja, staðfesti stuðning sinn við uppbyggingu í Afganistan og að þau hugleiði jafnvel aðkomu Atlantshafsbandalagsins í Mið-Austurlöndum ef Ísraelar og Palestínumenn komast að samkomulagi um frið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×