Innlent

Efast um óhlutdrægni ráðherra vegna skrifa hans

MYND/Pjetur

Verjendur í Baugsmálinu gerðu þá kröfu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að dómurinn skæri úr um hæfi Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra til að fela Sigurði T. Magnússyni valdheimildir Ríkissaksóknara vegna ákæruliðanna átta sem nú eru fyrir Héraðsdómi, eftir að Hæstiréttur vísaði þeim þangað aftur. Þessi krafa verjenda kom fram eftir að Jón H.B. Snorrason, saksóknari Ríkislögreglustjóra, lýsti því yfir í dóminum að Sigurður T. Magnússon færi með valdheimildir í ákæruliðunum átta en verjendur töldu að dómsmálaráðherra hafi skipað hann til að meta hvort tilefni væri til að gera eitthvað í ákæruliðunum þrjátíu og tveimur sem vísað var frá dómi.

Þetta kom verjendum á óvart, að sögn Gests Jónssonar, aðalverjanda í málinu, og varð tilefni þess að þeir óskuðu eftir úrskurði dómsins um hæfi dómsmálaráðherra, og færðu fyrir því rök. Gestur segir að sakborningar hafi ástæðu til að efast um óhlutdrægni dómsmálaráðherra í málinu í ljósi skrifa hans um Baug og þá sem verið hafa í forsvari fyrir félagið á undanförnum árum. Verjendur kröfðust þess einnig að Héraðsdómur úrskurðaði að þeir fengju aðgang að tölvugögnum þessa máls. Gestur segir að Ríkislögreglustjóri hafi samþykkt þann sjöunda september síðastliðinn að sá aðgangur yrði veittur en af ástæðum sem verjendum væri óskiljanlegar hefðu þeir ekki enn fengið aðganginn. Réttarhaldið í morgun var haldið að ósk verjenda að ákveðin yrði aðalmeðferð í málinu því óþolandi sé fyrir sakborningana að hafa málið hangandi yfir sér eins lengi og raunin hefur orðið. Gestur tók fram, varðandi spurninguna um hæfi dómsmálaráðherra, að það fæli ekki í sér vantraust á Sigurð T. Magnússon.

Rétturinn sker væntanlega úr í vanhæfismálinu á miðvikudag. Auk þessa vilja verjendur fá skýringu á því af hverju Jón Gerald Sullenberger, fyrrverandi viðskiptafélagi Baugsfeðga, sé ekki líka ákærður í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×