Innlent

Aðgerðir gegn hallarekstri

Háskólaráð Háskólans á Akureyri samþykkti í gær tillögur til þess að draga úr rekstrarkostnaði skólans. Ráðið skipaði jafnframt starfshóp sem fara á yfir rekstrarkostnað og skipulag Auðlindadeildar, Upplýsingatæknideildar og og Félagsvísinda- og langadeildar skólans. Hópurinn á að skila áliti fyrir miðjan október næstkomandi. Samþykkt var á fundi ráðsins í gær að ráðast strax í ákveðnar aðgerðir. "Rekstrargrundvöllur Upplýsingatæknideildar hefur verið ótraustur undanfarið ár og ákvað ráðið því að innrita ekki nýja nemendur á þessu ári," segir Þorsteinn Gunnarsson rektor. "Jafnframt verður auðlindadeildin endurskoðuð með það að markmiði að ná fram rekstrarhagræðingu. Þá verður námsframboð félagsvísinda- og lagadeildar einnig endurskoðað í sparnaðarskyni." Fulltrúar í háskólaráðinu benda á að Háskólinn á Akureyri hafi undanfarin misseri ráðist í umfangsmiklar og erfiðar aðgerðir til að draga úr kostnaði, meðal annars með því að auka samakennslu og fækka námskeiðum. Ráðið kveðst fara í ofangreindar aðgerðir í trausti þess að stjórnvöld styðji háskólann áfram og komi til móts við fjárhagsvanda hans, meðal annars með auknum fjárframlögum þannig að hann geti framfylgt þeim markmiðum sem löggjafinn hafi sett honum. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að Háskólinn á Akureyri hafi verið rekinn með halla frá árinu 2002 og í árslok hafi hann numið alls um 278 milljónum króna. Tekið er fram í skýrslunni að nemendafjöldinn við skólann hafi verið mun meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Ríkisendurskoðun rekur í skýrslu sinni sparnaðaraðgerir undanfarinna ára. Sett hafi verið yfirvinnuþak og gripið til fjöldatakmarkana svo nokkuð sé nefnt. Ríkisendurskoðun telur þrátt fyrir þetta að forsvarsmenn Háskólans á Akureyri hafi brugðist allt of seint við vandanum þar sem ljóst var þegar árið 2002 að rekstrarumfang hafi verið komið fram úr fjárheimildum. Þá segir í skýrslunni að menntamálaráðuneytinu hafi borið að grípa til nauðsynlegra aðgerða þegar ekki bólaði á nauðsynlegum aðgerðum árið 2003.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×