Innlent

Húsvagnar þurfa sérstaka tryggingu

Það er algengur misskilningur að kaskótrygging bíls bæti tjón sem verður á húsvagni við óhapp líkt og í ofsaveðrinu í gær. Sérstaka kaskótryggingu þarf fyrir húsvagna. Ef trygging er ekki fyrir hendi getur verið verulegt fjárhagslegt tjón að missa hjólhýsi, fellihýsi eða tjaldvagn í einhvers konar tjóni, eins og í óveðrinu sem geysaði í gær. Tryggingafélögin VÍS, TM og Sjóvá bjóða upp á kaskótryggingar fyrir hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna. Húsvagnatryggingar hafa verið í boði í nokkurn tíma og segir Pétur Pétursson, framkvæmdastjóri TM, þær vera vinsælar. Vindhraðinn í gær fór yfir 30 metra á sekúndu og telst því ofsaveður en þegar slíkt veður geysar eiga tryggingarnar að bæta tjónið. Þó getur gáleysi ökumanns haft einhver áhrif. Ásgeir Baldursson, markaðsstjóri hjá VÍS, sagði í samtali við Fréttastofu að menn gætu orðið af bótum ef um verulegt gáleysi væri að ræða. Algengur misskilningur er að fólk haldi að kaskótrygging bíls bæti tjón á húsvagni, lendi það í hremmingum, en svo er ekki. Kaskótrygging bílsins bætir einungis tjón sem húsvagninn veldur en ekki tjónið á vagninum sjálfum. Til þess þarf sérstaka kaskótryggingu á vagninn sjálfan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×