Innlent

Sátt þrátt fyrir ónæði og tafir

Framkvæmdir við Laugaveg milli Barónsstígs og Snorrabrautar hófust í gær og verður gatan í kjölfarið lokuð um þriggja mánaða skeið. "Við lífgum upp á götuna með fallegri hellulögn og trjám, auk þess sem lagnir verða endurnýjaðar og rafmagns- og símalínur bættar eftir þörfum," segir Þór Gunnarsson hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar. Bílastæðasjóður er einnig að reisa bílakjallara með tæplega tvö hundruð stæðum á reitnum og verður aðkoma að húsinu gerð samhliða framkvæmdunum að sögn Þórs. Þar stendur einnig til að reisa blandaða húsabyggð sem snúa mun út að Laugaveginum. Þór segir tímasetningu framkvæmdanna hafa verið ákveðna í samráði við verslunareigendur og aðra hagsmunaaðila á svæðinu. "Við fögnum því að verið sé að laga og bæta þennan hluta Laugavegarins auk þess sem viðskiptavinir okkar munu njóta góðs af bílastæðakjallaranum," segir Sigrún Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri hárgreiðslustofunnar Toni&Guy sem er til húsa á reitnum. "Hins vegar er ekki hægt að neita því að framkvæmdir við götuna geta valdið okkur ónæði og töfum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×