Erlent

Kristilegir hafa betur

Kristilegi demókrataflokkurinn hafði betur í kosningum til þýska sambandsþingsins sem fram fóru í Dresden í Þýskalandi í gær. Kosningunum þar var frestað fyrir tveimur vikum vegna dauðsfalls eins frambjóðanda í borginni. Þegar Fréttablaðið fór í prentun í gær var búið að telja meirihluta atkvæða. Þá hafði frambjóðandi Kristilegra demókrata fengið um 37 prósent atkvæða en frambjóðandi Jafnaðarmannaflokksins 32. Kosningaþátttaka í borginni var góð en 72 prósent greiddu atkvæði. Ef niðurstaðan verður þessi, fá kristilegu flokkarnir samtals 226 þingsæti á sambandsþinginu og bæta þar með við sig einu sæti en jafnaðarmenn fá 222. Þó þetta breyti litlu um niðurstöður kosninganna sem fram fóru 18. september mun þetta að öllum líkindum styrkja stöðu Angelu Merkel, leiðtoga kristilegra demókrata, en hún gerir líkt og Gerhard Schröder tilkall til kanslaraembættisins. Merkel og Schröder hafa tvívegis fundað að undanförnu um möguleikann á stjórnarmyndun stóru flokkanna en viðræður hafa strandað á því hvort þeirra eigi að leiða stjórn landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×