Erlent

Eftirlýstustu menn Suðaustur-Asíu

Talið er að tveir menn frá Suðaustur-Asíu hafi staðið á bakvið sjálfsmorðsárásir á þremur veitingastöðum á eyjunni Balí í Indónesíu á laugardag. 26 manns fórust í árásunum. Mennirnir, sem tengjast al Kaída-hryðjuverkasamtökunum, eru frá Malasíu. Eru þeir einnig sagðir hafa staðið á bak við skæðar sprengingar á sömu eyju árið 2002, þar sem 202 manneskjur fórust, og tvær árásir í höfuðborginni Jakarta árin 2003 og 2004. Mennirnir heita Azahari bin Husin og Noordin Mohamed Top. Borin hafa verið kennsl á líkamsleifar þeirra þriggja sem talið er að hafi framkvæmt sjálfsmorðsárásirnar og voru þeir ekki ekki á meðal þeirra. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, fordæmdi árásirnar í gær og lýsti yfir stuðningi við baráttu Indónesíu gegn hryðjuverkamönnum. "Við stöndum með Indónesíubúum á þessum erfiðu tímum," sagði Blair. "Ég vil einnig lýsa yfir stuðningi við íbúa Balí sem þurfa nú að jafna sig á öðru hroðaverki svo skömmu eftir árásina árið 2002." Vladimir Putin, forseti Rússlands, sendi einnig samúðarkveðjur sínar vegna árásanna og krafðist harðari aðgerða gegn hryðjuverkamönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×