Erlent

Frábær hvatning

Magnús Ólafsson, einn framkvæmdastjóra Alþjóða-kjarnorkumálastofnunar IAEA, segir mikinn fögnuð hafa ríkt á meðal starfsmannanna í höfuðstöðvunum í Vín í gær eftir að fregnir bárust að stofnunin og Mohammed ElBaradei, framkvæmdastjóri hennar, hefðu hlotið friðarverðlaun Nóbels. Hann telur verðlaunin styrkja IAEA verulega í störfum sínum. „Við erum í sjöunda himni," sagði Magnús Ólafsson, hjá IAEA í gærdag. „Við fréttum þetta á sama tíma og allir aðrir. Ég var rétt að koma af fundi með ElBaradei og hann sagði okkur frá að hann hefði beðið við símann ef vera skyldi að hann fengi verðlaunin, þar sem hann var tilnefndur, en aldrei hringdi síminn. Þá kveikti hann á sjónvarpinu til að sjá hvaða kjáni myndi fá verðlaunin í þetta skipti og það var þá bara hann sjálfur". Óhætt er að segja að mikill fögnuður hafi ríkt þegar tíðindin spurðust út. „Já, þá brutust út mikil læti út í húsinu, maður heyrði hróp og óp á öllum göngum," segir Magnús en bætir því við að ekki hafi verið gefið frí af þessu tilefni. Magnús, sem hefur starfað hjá stofnuninni í fjögur ár, telur verðlaunin skipta verulegu máli. „Það er nú alltaf gott að fá klapp á bakið. Hitt er hins vegar mikilvægara að þetta gerir okkur þekktari og virtari og viðurkenningin á því að auðvelda okkur að inna störf okkar af hendi. Þetta er einfaldlega frábær hvatning."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×