Innlent

Óánægja með breytingar

"Þarna er að mínu mati um mikla skammsýni að ræða enda verður engu breytt eftir að framkvæmdir hefjast," segir Jón Eiríksson, íþróttakennari við Lágafellsskóla. Sökum mikils kostnaðar við byggingu fyrirhugaðrar íþróttamiðstöðvar við skólann íhugar Mosfellsbær að láta byggja minna hús en til stóð í upphafi. Tilboði lægstbjóðanda í byggingu miðstöðvarinnar var tekið fyrir mánuði síðan en tilboðið hljóðaði upp á 875 milljónir króna. Var það um hundrað milljónum dýrari en ráð var fyrir gert og gerði minnihlutinn í bæjarstjórn strax athugasemdir við að farið yrði í slíka framkvæmd að óbreyttu enda vandséð hvaðan það aukalega fjármagn ætti að koma. Var gerð tillaga um smækkun gólfsvæðis til að minnka kostnað en það þýðir að gólfflötur hússins verður á stærð við körfuboltavöll í stað handboltavallar. Þetta telur Jón vera afdrifarík mistök sem menn muni sjá eftir þegar fram líða stundir. "Þetta takmarkar notagildi hússins til muna hvað íþróttakennslu varðar og er ekki í samræmi við stefnu bæjarins að standa öðrum framar hvað hreyfingu og íþróttaiðkun bæjarbúa varðar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×