Innlent

Hive selur inn á ADSL kerfi Símans

Netfyrirtækið Hive, sem er með sitt eigið ADSL-dreifikerfi, hefur brugðið á það ráð að tengja viðskiptavini sína við dreifikerfi Símans, frekar en að missa þá yfir til Símans ætli þeir sér að gerast áskrifendur að Enska boltanum. "Við höfum trú á því að fyrr eða síðar verði Síminn að láta þetta af hendi," segir Arnþór Halldórsson, framkvæmdastjóri Hive. Hive borgar síðan Símanum fyrir netnotkun viðkomandi en innheimtir af viðskiptavininum líkt og hann sé í viðskiptum við Hive. Þeir sem gerast áskrifendur að Enska boltanum gegnum ADSL skuldbinda sig til að vera með það hjá Símanum næstu tólf mánuði. Arnþór segir enga tæknilega annmarka á því að menn gerist áskrifendur að Enska boltanum og fleiri sjónvarpsstöðum gegnum ADSL-kerfi Hive. "Við getum boðið upp á mun meiri bandbreidd, átta eða tólf megabæt meðan Síminn býður aðeins upp á eitt til tvö megabæt." Og Vodafone býður viðskiptavinum sínum upp á svipaða þjónustu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×