Innlent

Strætó fer nýjar leiðir

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Snemma á næsta ári taka gildi breytingar á nýju leiðakerfi Strætó bs.
Snemma á næsta ári taka gildi breytingar á nýju leiðakerfi Strætó bs. Fréttablaðið/Valli
Stjórn Strætó bs. hefur sam­þykkt um­tals­verð­ar breyt­ing­ar á leiða­kerfi strætis­vagna á höfuð­borgar­svæði­nu. Þar á meðal er ákvörðun um þrjár nýjar leiðir, tvær í Reykjavík og ein í Kópavogi.

Þá hefur akstursleið vagns núm­er 13 verið breytt þannig að ek­ið verð­ur um Hamra­hlíð, en blind­ir og sjón­skert­ir mót­mæl­tu því að vagn­ar stöð­vuðust ekki leng­ur í næsta ná­grenni blindra­­heimilis­ins.

"Við hjá Strætó höfum gert okkur far um að hlusta eftir ábend­ingum vagnstjóra og farþega um hvað megi betur fara og eins hvað sé vel gert," segir Ásgeir Eiríksson, forstjóri Strætó, en nýtt leiðakerfi var tekið upp í sumar. "Í október var fram­kvæmd farþegatalning og fengust þá mikilvægar upp­lýs­ing­ar um nýtingu einstakra leiða." Breytingarnar sem nú eru fyrir­hugaðar taka gildi í febrúar.

Ein af nýju leiðunum þremur tengir Fella- og Hólahverfi við Mjódd­ina og tengir hana síðan áfram við Hlemm um Sogaveg, Grens­ásveg og Suðurlandsbraut. Leið­in er nánast sú sama og leið 12, sem áður gilti. Þá verður tekin upp leið úr Grafarholti um Hálsa- og Höfðahverfi og þaðan um Bústaðaveg að Hlemmi og svo ný hringleið í Kópavogi sem liggur um vestur­bæinn, Nýbýlaveg, Þver­brekku, Álfhólsveg og Hamra­borg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×