Innlent

Játaði manndráp en neitaði ásetningi

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Sigurður Freyr Kristmundsson færður fyrir dómara.
Sigurður Freyr Kristmundsson færður fyrir dómara.
Sigurður Freyr Krist­munds­son hefur játað fyrir dómi að hafa orðið tvítugum pilti að bana í húsi við Hverfisgötu í Reykjavík að morgni laugardagsins 20. ágúst.

Sigurður, sem er 23 ára gamall, neitar því að um ásetning hafi verið að ræða. Mál á hendur honum var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag. Foreld­rar piltsins sem lést krefja Sigurð um skaðabætur, móðirin 3.150.000 krónur og faðirinn 2.216.313 krónur.

Sveinn Andri Sveinsson, lög­maður Sigurðar, segir hann hafa játað önnur brot sem einnig er ákært fyrir. Aðalmeðferð í málinu sem fram fer í lok janúar segir hann því að mestu koma til með að snúast um "stig ásetnings" í manndrápsmálinu.

Í ákæru ríkissaksóknara kemur fram að Sigurður hafi stung­ið þann sem lést með hnífi í brjóstholið, en stungan náði í gegnum hjarta hans og í lifur.

Þegar atburðurinn átti sér stað var Sigurður þegar úrskurðaður í gæsluvarðhald, en ástand hans var að sögn lögreglu með þeim hætti að erfitt var að yfirheyra hann.

Lögregla var kvödd að íbúðinni snemma á laugardagsmorni með tilkynningu um að maður hefði verið stunginn. Þegar hún kom á vettvang hófust þegar lífgunartilraunir, en þær báru ekki árangur og maðurinn lést skömmu síðar.

Í íbúðinni var lagt hald á hnífinn sem talið var að hefði verið notaður. Fleira fólk sem var í íbúðinni, tveir karlmenn og ein kona, var einnig handtekið og yfirheyrt en sleppt fljótlega. Öll voru þau sögð í annarlegu ástandi.

Auk manndrápskærunnar er Sigurður ákærður fyrir að hafa í byrjun ágúst brotist inn í íbúð við Framnesveg í Reykjavík og stolið þar fartölvu, stafrænni myndavél, DVD-spilara og fleiru smálegu.

Þá er hann kærður fyrir að hafa í fimm skipti frá því í nóvember í fyrra og þar til um mitt síðasta sumar brotið umferðarlög, með akstri án réttinda og stundum undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×