Erlent

Cameron segist vera framtíðin

Fullur sjálfstrausts. David Cameron virtist fullur sjálfstrausts er hann mælti fyrir stjórnarandstöðunni í spurningatíma forsætisráðherra í þinginu í gær.
Fullur sjálfstrausts. David Cameron virtist fullur sjálfstrausts er hann mælti fyrir stjórnarandstöðunni í spurningatíma forsætisráðherra í þinginu í gær.

David Cameron, nýkjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins, mætti Tony Blair í vikulegum spurningatíma forsætisráðherrans á þinginu í Westminst­er í gær. Hin nýja vonarstjarna íhaldsmanna reyndi við það tækifæri að varpa upp þeirri ímynd af sér að hann væri ásjóna pólitískrar framtíðar Bretlands en Tony Blair maður liðins tíma.

Þingmenn íhaldsflokksins létu óspart í sér heyra þegar Cameron sté í pontu og hann glotti þegar Blair óskaði honum til hamingju með sigurinn í leiðtogakjörinu. Sá sigur varð ljós á þriðjudag er atkvæði í póstkosningu almennra flokksfélaga Íhaldsflokksins höfðu verið talin. Nýi íhaldsleiðtoginn vatt sér beint í að ota spjótum að Blair; lýsti hann sjálfum sér sem ásýnd ungs og bjartsýns Bretlands en Blair sem stjórnmálamanni hvers tími væri liðinn.

"Hann var framtíðin einu sinni," sagði Cameron um Blair. Þessi hálftímalanga mælsku­­glíma var fyrsta áberandi prófraunin á það hvort Cameron stæði undir þeim væntingum sem flokksmenn hans binda við hann. Cameron er fimmti maðurinn sem fer fyrir Íhaldsflokknum síðan hann vann síðast kosningar árið 1992.

Cameron er 39 ára, tveimur árum yngri en Blair var þegar hann tók við forystu Verkamannaflokksins á sínum tíma. Vonast flokksmenn hans til að ungur aldur nýja flokksforingjans, metnaður hans, mælska og miðju­sæknar stjórnmálaáherslur eigi eftir að hjálpa flokknum til valda á ný eftir næstu kosningar sem væntanlega fara fram árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×