Erlent

Hofstad-hópurinn fyrir rétt

Heittrúaðar í Hollandi. Hollenskar lögreglukonur hafa hér gætur á tveimur konum klæddum að sið strangtrúaðra múslima fyrir utan dómhús í Amsterdam. Þar hófst í gær réttarhald yfir fjórtán mönnum, þar á meðal morðingja hollenska kvikmyndagerðarmannsins Theo van Gogh, en þeir eru ákærðir fyrir aðild að leynifélagi herskárra múslima og að leggja á ráðin um að sýna hollenskum stjórnmálamönnum banatilræði.
Heittrúaðar í Hollandi. Hollenskar lögreglukonur hafa hér gætur á tveimur konum klæddum að sið strangtrúaðra múslima fyrir utan dómhús í Amsterdam. Þar hófst í gær réttarhald yfir fjórtán mönnum, þar á meðal morðingja hollenska kvikmyndagerðarmannsins Theo van Gogh, en þeir eru ákærðir fyrir aðild að leynifélagi herskárra múslima og að leggja á ráðin um að sýna hollenskum stjórnmálamönnum banatilræði.

Réttarhald hófst í Amsterdam í gær yfir fjórtán ungum mönnum, sem allir eru múslimar af norður-afrískum uppruna en uppaldir í Hollandi. Þeir eru ákærðir fyrir aðild að öfgasamtökum og að leggja á ráðin um að sýna hollenskum stjórnmálamönnum banatilræði.

Flestir mannanna eru af marokkósku bergi brotnir en hollenskir ríkisborgarar. Hollenska lögreglan handtók mennina eftir morðið á van Gogh í nóvember í fyrra.

Morðið framdi Mohamed Bouyeri en hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi í vor. Hinir mennirnir sem nú svara fyrir rétti með Bouyeri eru grunaðir um að vera meðlimir félagsskapar sem rannsóknarlögreglumenn gáfu nafnið Hofstad-hópurinn.

Verjendur sakborninganna segja þá vera trúuð en saklaus ungmenni. Saksóknarar segja sakborningana hafa haft í fórum sínum afrit af bréfinu sem Bouyeri skildi eftir á líki van Gogh og leiðarvísa um hvernig framkvæma skuli íslömsk trúarmorð. Nokkrir hinna ákærðu hefðu fengið þjálfun í vopnuðum árásum í búðum öfgamanna í Paki­stan.

Réttarhaldið fór ekki vel af stað í gær. Fyrsta vitnið sem leitt var fyrir réttinn neitaði alfarið að svara nokkrum spurningum; vildi ekki einu sinni staðfesta hvað það héti.

Dómarar sögðu vitnið, konu með klút fyrir öllu andlitinu, heita Malika Shabi. Shabi sat þögul er dómarinn A. de Boer las upp úr skýrslu lögreglu um vitnisburð hennar sem hún gaf í yfirheyrslu 30. ágúst. Þar vitnaði hún um skyndibrúðkaup sitt og eins sakborningsins, Nouriddin el Fatmi.

Fatmi var handtekinn nálægt lestarstöð í Amsterdam með vélbyssu og skotfæri. Að því er haft er eftir Shabi í skýrslunni voru þau Fatmi gefin saman í stuttri og fábrotinni athöfn í lítilli íbúð í Amsterdam haustið 2004, án samþykkis eða vitundar foreldra þeirra.

Enginn múslimaprestur, imam, var heldur viðstaddur. Það var Bouyeri sem brá sér í það hlutverk og tók við giftingareiðum þeirra. Shabi sagði Fatmi hafa krafist þess að þau giftust vegna þess að það væri skylda hvers múslimakarlmanns að kvænast áður en hann deyi. Þau horfðu saman á al-Kaída-áróðursmyndbönd og á brúðkaupsnóttina hefði Fatmi talað um löngun sína til að myrða Ayaan Hirsi Ali, hollensku þingkonuna sem er upprunnin í Sómalíu en hún vann með van Gogh að gerð sjónvarpsmyndarinnar Undirgefni sem fjallaði um hlutskipti múslimakvenna.

Í vitnisburði Shabi segir enn fremur að Fatmi hafi sýnt henni hnífa sem hann og aðrir meðlimir hópsins hafi notað til að æfa sig í að slátra kindum samkvæmt íslömsk­um helgisiðum, en sömu aðferð hugðust þeir beita við að drepa fólk.

Saksóknarinn Koos Plooy sagði ástæðuna fyrir þögn Shabi í vitnastúkunni kunna að vera hótunarbréf sem henni barst. Í því hafi henni verið sagt að tala ekki við lögreglu eða trúleysingja og hún áminnt um dómsdag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×