Innlent

Vilja menntaskóla í Borgarfjörð

Helga Halldórsdóttir, forseti bæjarstjórnar, vill að menntaskóli rísi í Borgarnesi.
Helga Halldórsdóttir, forseti bæjarstjórnar, vill að menntaskóli rísi í Borgarnesi.

Bæjarstjórnin í Borgarbyggð hefur sótt formlega um það til menntamálaráðherra að hann staðfesti stofnun Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi.

"Þetta mál hefur fengið mjög jákvæð viðbrögð hjá menntamálaráðherra og starfs­mönnum ráðuneytisins og ekki síður hérna heima í héraði," segir Helga Halldórsdóttir, forseti bæjarstjórnar Borgarbyggðar, sem á sæti í öðrum af tveimur vinnuhópum sem sjá um stofnun skólans.

Málið á sér langan aðdraganda. Fyrir um tuttugu árum voru margir framhaldsskólar starfandi í Borgarfirði. Meðal annars var þar skóli í Reykholti, húsmæðraskóli á Varmalandi og iðnskóli í Borgarnesi. "Það var fjölbreytt flóra framhaldsmenntunar í Borgarbyggð en hún er öll horfin núna," segir Helga.

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi er eini framhaldsskólinn á svæðinu og telja Borgfirðingar að þörf sé á öðrum framhaldsskóla á svæðið. "Á síðasta ári var gerð könnun meðal íbúa um hvað þeir teldu helst skorta í Borgarbyggð og þar kom fram að fólk taldi skorta möguleika á að sækja framhaldsmenntun á svæðinu. Of stór hluti barna hérna fer ekki í framhaldsnám og við viljum breyta því," segir Helga.

Reiknað er með að skólinn fari af stað í bráðabirgðahúsnæði haustið 2006. Bæjarstjórnin í Borgarbyggð á von á svari frá menntamálaráðuneytinu fyrir árslok og segir Helga að ef bæjarstjórnin fái grænt ljós frá ráðuneytinu verði strax eftir áramót farið í það verkefni að ráða skólameistara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×