Erlent

CIA notar breska og þýska flugvelli

Ramstein. Þýska vikuritið Der Spiegel heldur því fram að flugvélar á snærum CIA hafi í 473 skipti farið um þýska lofthelgi og lent á þarlendum flugvöllum.
Ramstein. Þýska vikuritið Der Spiegel heldur því fram að flugvélar á snærum CIA hafi í 473 skipti farið um þýska lofthelgi og lent á þarlendum flugvöllum.

Þýskir og breskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að flugvélar bandarísku leyniþjónustunnar CIA hefðu ítrekað haft viðkomu á þarlendum flugvöllum.

Condoleezza Rice heimsækir fjögur Evrópulönd í vikunni og má gera ráð fyrir að hún verði krafin svara um fangaflug og leynifangelsi í henni.

Í nýjasta tölublaði þýska vikuritsins Der Spiegel, sem út kemur í dag, er sagt frá því að flugvélar sem sagðar eru á vegum CIA hafi farið í 437 skipti um þýska lofthelgi og lent á flugvöllum í Berlín, Frankfurt og í bandarísku herstöðinni í Ramstein á árunum 2002 og 2003.

Upplýsingarnar koma frá þýsku ríkisstjórninni eftir að Vinstriflokkurinn fór fram á að þær yrðu teknar saman. Ekkert kemur fram um erindi vélanna eða hverjir voru um borð. Þá er því haldið fram í breska blaðinu Mail on Sunday í gær að CIA hafi fengið ótakmarkað leyfi til lendinga á breskum flugvöllum. Máli sínu til stuðnings birtir blaðið myndir af þremur flugvélum sem bendlaðar hafa verið við flutninga á grunuðum hryðjuverkamönnum, en myndirnar tóku flugáhugamenn á flugvöllum í Skotlandi í ár og í fyrra.

Ein þessara véla er undir smásjá Evrópuráðsins vegna ásakana um að hún hafi verið notuð til slíkra flutninga. Önnur vélin hefur einnig verið ljósmynduð á alþjóðaflugvellinum í Kabúl í Afganistan.

Blaðið segir breska varnarmálaráðuneytið engar skýringar hafa gefið á ferðum vélanna. Evrópuför Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefst í Þýskalandi í dag en þá munu þær Angela Merkel kanslari hittast.

Búist er við að ásakanir um fangaflug og leynileg fangelsi sem CIA á að starfrækja í Evrópu muni verða ofarlega á baugi en fram til þessa hafa bandarísk stjórnvöld ekkert tjáð sig efnislega um málið.

Stephen Hadley, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, sagði í viðtali á Fox-sjónvarpsstöðinni í gær að Rice myndi segja bandamönnum sínum að ríkisstjórn Bandaríkjanna standi ekki í flutningum á grunuðum hryðjuverkamönnum til landa þar sem þeir eru pyntaðir. Í viðtali við CNN vildi Hadley ekki svara hvort CIA ræki leynifangelsi í Evrópu, aðeins að Bandaríkjamenn virtu fullveldi þeirra ríkja sem þeir ættu í samskiptum við.

Dagblaðið International Herald Tribune segir í grein á vefsíðu sinni í gær að stóra spurningin í öllum þessum umræðum hljóti að vera hversu mikla vitneskju stjórnvöld í umræddum ríkjum hafi haft um fangaflutningana og leynifangelsin. Því sé ekki víst að leiðtogar Evrópuríkjanna vilji þjarma of mikið að Bandaríkjamönnum því þá gæti um leið komið í ljós að þáttur þeirra í málinu sé meiri en þeir hafa hingað til haldið fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×