Erlent

Níu milljónir dúsa í fangelsi

Litla-Hraun. Íslendingar virðast upp til hópa löghlýðnir sé horft til fjölda fanga hérlendis saman­borið við önnur ríki.
Litla-Hraun. Íslendingar virðast upp til hópa löghlýðnir sé horft til fjölda fanga hérlendis saman­borið við önnur ríki.

Fangar heimsins eru orðn­ir rúmlega níu milljón tals­ins og meira en helmingi þeirra er haldið í fangelsum í þremur ríkjum: Bandaríkjunum, Kína og Rússlandi. Ísland er meðal þeirra ríkja sem hafa fæsta bak við lás og slá.

Föngum hefur fjölgað í þrem­ur af hverjum fjórum ríkjum heims á síðustu árum, samkvæmt samantekt háskólans King's College í Lundúnum. Flestir eru í bandarískum fangelsum, rúmar tvær milljónir. Meira en einni og hálfri milljón manna er haldið í kínverskum fangelsum.

Næst kemur Rússland með 760 þúsund fanga og Brasilía og Kína með rúmlega 300 þúsund fanga. Bandaríkin eru líka efst á lista yfir þau ríki heims sem eru með hæst hlutfall íbúa sinna bak við lás og slá. Þar eru 714 í fangelsi á hverja 100 þúsund íbúa.

Á hinum enda töflunnar er svo Búrkína Faso þar sem 23 af hverjum 100 þúsund íbúum eru í fangelsi. Ef litið er til Norðurlanda eru flestir fangar í Svíþjóð, 75 á hverja 100 þúsund íbúa. Næstir koma Finnar með 71 fanga á hverja 100 þúsund íbúa, Danir með 70, Norðmenn 65 og Íslend­ingar með 39.

Fæstir eru svo í haldi í Færeyjum, fjórtán í allt eða þrjátíu framreiknað á 100 þúsund íbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×