Erlent

Pyntingar ennþá algengar

Manfred Nowak. Barsmíðar með hnefum eða kylfum, jafnvel rafmagnskylfum, eru algengustu pyntingaraðferðirnar í Kína.
Manfred Nowak. Barsmíðar með hnefum eða kylfum, jafnvel rafmagnskylfum, eru algengustu pyntingaraðferðirnar í Kína.

Pyntingar eru ennþá algengar í kínverskum fangelsum enda þótt ríkisstjórn landsins segist vinna að því hörðum höndum að uppræta slíkt ofbeldi.

Þetta er niðurstaða erindreka Sameinuðu þjóðanna sem kannaði ástandið og ræddi við fanga. Manfred Nowak, erindreki SÞ, ferðaðist um Kína í síðasta mánuði og fékk þá einstakt tækifæri til að ræða við fanga og embættismenn um þessi mál.

Hann sagði við kynningu á niðurstöðum sínum í gær að þótt kínversk stjórnvöld hefðu gert ýmislegt jákvætt á síðustu árum til að koma í veg fyrir misþyrmingar í fangelsum sínum væru pyntingar enn algengar.

Ofbeldi virðist einkum beitt á kerfisbundinn hátt gegn tíbeskum föngum en einnig fá meðlimir í samtökum Falun Gong sinn skerf. Pyntingum er beitt til að ná fram játningum en einnig í refsingar- og "endurhæfingarskyni".

He Depu lýðræðisumbótasinni var til dæmis neyddur til að liggja kyrr á rúmi í köldu herbergi í fangelsi sínu í 85 daga. Barsmíðar með rafmagnskylfum og langvarandi vökur eru á meðal þess fangarnir eru látnir sæta. Kínversk stjórnvöld segja að sú staðreynd að þau hafi heimilað heimsóknina sýni að þeim sé alvara með að uppræta þennan ófögnuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×