Erlent

Fyrsta orð sjúklingsins var "takk"

Aðgerðin skýrð. Frá blaðamanna-fundinum í Lyon í gær.
Aðgerðin skýrð. Frá blaðamanna-fundinum í Lyon í gær.

Fyrstu orðin sem konan sem gekkst undir fyrstu andlitsflutningsaðgerðina sem reynd hefur verið sagði voru "takk fyrir". Frá þessu greindu franskir skurðlæknar á blaðamannafundi í Lyon í gær.

Aðgerðina framkvæmdu þeir á sjúkrahúsi í Amiens í Norður-Frakklandi síðastliðinn sunnudag. Dr. Bernard Devauchelle sagði að sjúklingurinn hefði komist til meðvitundar sólarhring eftir aðgerðina, en í henni var nef, munnur og haka grætt í einu lagi á konuna, sem hundur hafði limlest í framan. Andlitshlutinn var skorinn af heiladauðri konu, en aðstandendur hennar höfðu fallist á það.

"Sjúklingurinn var vaknaður eftir réttan sólarhring og, bendandi á barkaslönguna, sagði fyrsta orðið: merci," sagði Devauchelle. Á bak við hann var varpað upp á skjá mynd af þeim andlitshluta sem græddur var á.

Konan sem gekkst undir aðgerðina vill ekki að nafn hennar komi fram. Hún er 38 ára fráskilin móðir tveggja dætra á unglingsaldri. Frá því aðgerðin var gerð hefur hún getað borðað jarðarber og súkkulaði og drukkið kaffi og safa, að sögn læknanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×