Erlent

Árið 2005 eitt mesta hamfaraár sögunnar

Erfitt ár. Fórnarlömb jarðskjálftanna í Pakistan eru á meðal þeirra sem þurft hafa á aðstoð SÞ að halda. Samtökin fóru í gær fram á 265 milljarða aðstoð en sú upphæð jafngildir hernaðarútgjöldum heimsins á tveimur dögum.
Erfitt ár. Fórnarlömb jarðskjálftanna í Pakistan eru á meðal þeirra sem þurft hafa á aðstoð SÞ að halda. Samtökin fóru í gær fram á 265 milljarða aðstoð en sú upphæð jafngildir hernaðarútgjöldum heimsins á tveimur dögum.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fór í gær fram á 265 milljarða króna framlag frá ríkjum heims til að aðstoða þrjátíu milljónir manna í 26 ríkjum í öllum heimshornum þar sem neyðarástand ríkir.

Árið 2005 hefur verið sannkallað hamfaraár og hafa SÞ aldrei þurft að bregðast jafn oft við ákalli frá bágstöddum. "Árið sem er að líða hefur verið hræðilegt fyrir fórnarlömb náttúruhamfara," sagði Annan þegar hann fylgdi eftir ávarpi sínu í gær.

"Engu að síður var líka sýnt fram á hve rausnarleg við getum verið. Margir þjást þótt þjáningar þeirra hafi ekki vakið athygli heimsins. Ákallið um mannúðaraðstoð að þessu sinni er tækifæri til að aðstoða þetta fólk."

Annan bætti því við að upphæðin væri ekki ýkja há væri litið til þeirra verkefnanna fram undan. "Raunar er hún lægri en sú upphæð sem rennur til herja veraldarinnar á tveimur sólarhringum."

Í fréttatilkynningu frá SÞ segir að þótt árið sé ekki liðið hafi 2005 þegar fengið nafnbótina hamfaraár. Í ársbyrjun þurfti að bregðast við flóðöldunni á Indlandshafi en í árslok er hlúð að fórnarlömbum jarðskjálftanna í Suður-Asíu. Hungursneyð í Níger, óöryggi í fæðuöflun í Afríku sunnan Sahara og skæðustu fellibyljir á Atlantshafi sem um getur hafa einkennt árið.

SÞ hafa tíu sinnum þurft að kalla eftir neyðaraðstoð í skyndi en það er met. Jan Egeland, aðstoðarframkvæmdastjóri mannúðar- og neyðaraðstoðar SÞ, bendir á að flestar þessara hörmunga eigi sér stað utan kastljóss fjölmiðlanna, aðeins einar eða tvennar hamfarir nái athygli heimsis á ári.

"Fjármögnun mannúðaraðstoðar þyrfti að vera fyrirsjáanlegri og jafnari og fleiri þyrftu að láta fé af hendi rakna."

Samtökin hafa þegar tekið saman beiðnir fyrir næsta almanaks­ár og er gert ráð fyrir að fjórtán ríki eða svæði þurfi á aðstoð að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×