Erlent

Heldur umbótum Schröders áfram

Merkel boðar bjartsýni. Kanslarinn lagði áherslu á tækifærin sem fælust í hinu nýja stjórnarsamstarfi stóru flokkanna.
Merkel boðar bjartsýni. Kanslarinn lagði áherslu á tækifærin sem fælust í hinu nýja stjórnarsamstarfi stóru flokkanna.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, boðaði í stefnuræðu sinni í þýska Sambandsþinginu í gær að halda þeim kerfisumbótum áfram sem lagt hefði verið af stað með í tíð fyrri ríkisstjórnar, með það að markmiði að blása nýjum þrótti í efnahags- og þjóðlíf Þýskalands.

Hún hét því einnig að koma tengslunum vestur um haf í samt lag, en andstaða fyrrverandi kanslarans Gerhards Schröder við Íraksstríðið setti mark sitt á samskipti ríkisstjórnar hans við ráðamenn í Washington.

Merkel lét þess reyndar getið að ásakanir um leynilega fangaflutninga á vegum bandarísku leyniþjónustunnar CIA um lofthelgi og flugvelli Þýskalands og fleiri Evrópulanda yllu nýrri spennu í samskiptunum við Bandaríkin.

Hún treysti því hins vegar að í Washington væru þessar áhyggjur Evrópumanna teknar alvarlega og bráðlega tækist að upplýsa málið þannig að það yrði samstarfi bandamannanna beggja vegna Atlantshafs ekki til trafala.

Merkel kvað líka afdráttarlaust að orði í tilefni af fréttum af því að mannræningjar hefðu rænt þýskri konu í Írak. Hún sagði stjórn sína ekki láta kúga sig, en meðal krafna mannræningjanna er að þýsk stjórnvöld skeri á öll samskipti við Íraksstjórn.

Kanslarinn lét einskis frekar getið um stefnu stjórnar sinnar í Íraksmálum. Í ræðunni gaf Merkel enn fremur til kynna breyttar áherslur í Evrópustefnunni. Lagði hún áherslu á að stjórn hennar vildi eiga sem best samskipti við minni ríki álfunnar, en í þeirra röðum voru ekki allir sáttir við þá áherslu sem stjórn Schröders lagði á að eiga nána samleið með Frökkum. Stefnuræðan verður rædd í Sambandsþinginu það sem eftir er vikunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×