Innlent

Tekist er á um framtíð Íbúðalánasjóðs

Íbúðalánasjóður.
Hallur Magnússon, Guðmundur Bjarnason og Jóhann Jóhannsson sátu fyrir svörum á blaðamannafundi um stöðu Íbúðalánasjóðs í gær.
Íbúðalánasjóður. Hallur Magnússon, Guðmundur Bjarnason og Jóhann Jóhannsson sátu fyrir svörum á blaðamannafundi um stöðu Íbúðalánasjóðs í gær.

Tekist er á um framtíð Íbúðalánasjóðs milli stjórnarflokkanna. Árni Magnússon félagsmálaráherra skipaði nefnd í september sem átti að fjalla um breytingar á sjóðnum og skila af sér tillögum í október. Engar niðurstöður hafa borist frá nefndinni og Árni lýsti því yfir í vikunni að útilokað væri að breytingar yrðu gerðar á starfsemi og hlutverki sjóðsins þennan veturinn.

Þetta gengur þvert á ályktun sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins sendi frá sér um húsnæðismál. Þar segir að stefnt skuli að því að sjóðurinn eigi að tryggja bönkum og spari­sjóðum fjár­mögnun íbúðalána með lægstu mögulegum vöxtum en starfi ekki á almennum útlánamark­aði.

Hingað til hefur Árni M. Matthiesen fjármálaráðherra ekki viljað tjá sig um málið. "Hallur Magnússon tilkynnti að sjóðurinn væri ekki í samkeppni við bankana og svo allt í einu núna þegar þeir þurfa að vera með hærri vexti en bankarnir þá breyta þeir þessu. Það liggur alveg fyrir hvað þeir ætla sér," var það eina sem Ármann Kr. Ólafsson, aðstoðarmaður Árna Matthiesen, vildi segja um málið í gær.

Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, kallaði til blaðamannafundar í gær þar sem traust fjárhagsleg staða sjóðsins var ítrekuð. Fundur þessi kom í kjölfar yfirlýsingar Þórðar Geirs Jónassonar, yfirmanns Lánasýslu ríkisins um að óvissa ríkti um stöðu sjóðsins.

"Það er unnt að misskilja þessa umræðu forstjóra Lánasýslu ríkisins á þann hátt að við færum beint á athugunarlista hjá matsfyrirtækjum. Sjóðurinn er ekki á þess háttar listum," segir Hallur Magnússon, sviðsstjóri í Íbúðalánasjóði.

Hallur segir að misskilningur um stöðu sjóðsins geti hæglega haft neikvæð áhrif á lánshæfismat sjóðsins og í kjölfarið á lánshæfi íslenska ríkisins. Því sé mikilvægt að komið sé í veg fyrir þennan misskilning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×