Innlent

Hetjur óskast til blóðgjafar

Sveinn guðmundsson yfirlæknir Blóðbankans kallar eftir stuðningi heilbrigðisyfirvalda til að tryggja öflugt kynningarstarf.
Sveinn guðmundsson yfirlæknir Blóðbankans kallar eftir stuðningi heilbrigðisyfirvalda til að tryggja öflugt kynningarstarf.

Blóðbankinn hefur hrint af stað kynningarátaki í samvinnu við Og Vodafone undir heitinu. "Hetjur óskast". Í dag eru níu til tíu þúsund virkir blóðgjafar á Íslandi. Síðustu áratugina hefur Ísland verið sjálfu sér nægt um blóðhluta.

Á blaðamannafundi þar sem átakið var kynnt kom meðal annars fram að með hækkandi meðal­aldri þjóðarinnar fjölgar þeim sem þurfa blóð og blóðhluta vegna sjúkdóma og aðgerða. Á sama tíma fækkar hlutfallslega þeim sem geta gefið blóð.

Í dag eru engar opinberar fjárveitingar eyrnamerktar til kynningarstarfs á vegum Blóðbankans. Þvert á móti hafa fjárveitingar til Blóðbankans verið skornar niður á liðnum árum. Það er algerlega óviðunandi þróun að sögn Sveins Guðmundssonar, yfirlæknis hjá Blóðabankanum. Enn fremur kom fram að núverandi kynningu er ætlað að draga fram þá staðreynd að sérhver blóðgjafi er hetja, hverju sinni sem hann gefur blóð. Hetja sem bjargar mannslífum.

Framlag Og Vodafone til kynningarstarfs hefur skilað mikilvægum árangri á síðustu árum. Það er von Blóðbankans að það verði heilbrigðisyfirvöldum hvatning til að leggja sitt af mörkum til að tryggja öflugt kynningarstarf um nauðsyn blóðgjafa á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×