Innlent

Sýnir umburðarlyndi fólks

Árni Magnússon segir niðurstöður könnunarinnar sýna ­glöggt­ hversu umburðarlynd þjóð Íslendingar væru og taldi mikilvægt að þjóð og þing væru samstíga í þessu máli.
Árni Magnússon segir niðurstöður könnunarinnar sýna ­glöggt­ hversu umburðarlynd þjóð Íslendingar væru og taldi mikilvægt að þjóð og þing væru samstíga í þessu máli.

"Þetta eru stórkostlegar tölur en við höfum ekki haft neina beina vitneskju um hver afstaða Íslendinga væri í þessu máli," sagði Hrafnhildur Gunnarsdóttir, formaður Samtakanna '78, þegar hún var innt eftir viðbrögðum við niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins, sem sýna að rúm 82 prósent eru því fylgjandi að lesbíur í sambúð fái að eignast börn með gjafasæði.

"Þetta eru mun betri tölur en ég hafði giskað á," segir Hrafnhildur og taldi þessar niðurstöður bera vitni um þá skynsemi sem Íslendingar hafa sýnt í þessu máli.

"Við höfum haft grun um að þjóðin væri komin fram úr löggjafanum í þessu máli og þessar tölur sýna það," segir hún og telur viðhorf þjóðarinnar vera allt annað en fyrir tíu árum. "Þetta kemur því ánægjulega á óvart."

Árni Magnússon félagsmálaráðherra gladdist mjög yfir þessum niðurstöðum og sagði þær sýna hversu umburðarlynd þjóð Íslendingar væru. "Þetta mál er þess eðlis að þetta kemur mér ekki á óvart. Ég er mjög ánægður að sjá að stjórnvöld skuli í þessu máli vera á leið sem fellur þjóðinni í geð."

Árni taldi ennfremur mjög mikilvægt að þjóð og þing væru samstiga í þessum efnum og það væri það sem nú ætti sér stað. Frumvarp Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra mun taka á þessu máli og Árni taldi því að nú væri horft fram á bjartari, frjálslyndari og umburðarlyndari tíma. Sjálfur segist félagsmálaráðherra vera mjög eindreginn í afstöðu sinni til þessa máls sem hann telur sjálfsögð réttindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×