Innlent

Nýtt fjölþjóðlegt sam­starf um vetni

Jón Björn Skúlason er framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku, sem fer fyrir nýjum fjölþjóðasam­starfsvettvangi á sviði vetnisrannsókna.
Jón Björn Skúlason er framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku, sem fer fyrir nýjum fjölþjóðasam­starfsvettvangi á sviði vetnisrannsókna.

Unnið er að stofnun form­­legs samstarfsvettvangs Íslend­inga, Norðmanna, Fær­ey­inga og Græn­lendinga á sviði vetnis­rann­sókna. Verið er að huga að sam­eigin­­legum verkefnum en sam­tökin, North Atlantic Hydro­gen Association, á að stofna form­lega á fundi á Grænlandi í ágúst á næsta ári.

Jón Björn Skúlason, fram­­kvæmda­­­­stjóri Íslenskrar nýorku, segir að Norræna Atlantsnefndin, NORA, hafi styrkt verkefnið um 250.000 danskar krónur, eða um sem nemur tæpum 2,5 milljónum króna.

Íslensk nýorka er tengi­liður og þungamiðja samstarfsins en Jón Björn gerir ráð fyrir því að samstarfsaðilum fjölgi þegar á líður. "Styrkurinn á að nægja til að koma þessu af stað, en svo sjá samtökin sjálf um fjármögnun í framtíðinni," segir hann og telur ýmislegt unnið með samstarfinu við nágrannaþjóðir okkar.

"Þessi lönd hafa verið að skoða þann möguleika að koma inn í vetnisheiminn. Grænland sótti meðal annars um aðild að International Partnership for Hydrogen Economy sem Ísland er aðili að. Löndin hafa verið að leita eftir upplýsingum til okkar og við töldum rétt að koma á formlegum samskiptum þarna á milli," segir hann og bætir við að einnig hafi verið horft til þess að betur hentaði að taka þátt í víðtækara alþjóðlegu samstarfi í félagi við þessi lönd.

"Það hefur meiri áhrif út á við og svo opnar þetta möguleika á nýjum verkefnum og eins aukna fjármögnunarmöguleika."

Jón Björn segir lykilsamstarfið eiga að felast í skiptum á upplýsingum, auk þess að setja af stað sameiginleg verkefni sem nýtist öllum. Hann segir með ráðum gert að hafa ekki upphafsráðstefnuna hér á landi, því með því að vera annars staðar megi kynna verkefnið betur almenningi og fyrirtækjum.

"Hér er meiri þekking á þessu en víða annars staðar. Svo höfum við fundið fyrir mjög sterkum pólitískum stuðningi við verkefnið í öllum þessum löndum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×