Lífið

Þetta er ekki ævisaga heldur baráttusaga

Jónsbók og viðfangsefnið sjálft.
Bókin er alls fimm hundruð síður og hana prýðir ljósmyndir sem aldrei hafa komið fyrir almenningssjónir.
Jónsbók og viðfangsefnið sjálft. Bókin er alls fimm hundruð síður og hana prýðir ljósmyndir sem aldrei hafa komið fyrir almenningssjónir.

Í dag kom út Jónsbók, saga Jóns Ólafssonar athafnamanns, sem er skráð af Einari Kárasyni. Bókin kom úr prentun í gær og var Jón mættur í prentsmiðjuna Odda þar sem hann beið eftir fyrstu eintökunum. Helga eiginkona hans og Friðrik sonur hans voru með honum í för og biðu jafn spennt eftir að sjá útkomuna.

Eintökin áttu að koma um þrjúleytið en smá seinkun varð á. Jón tók öllu með stóískri ró og sagði sögu af kvikmyndaframleiðanda hjá Paramount á meðan. Ef einhver veit að tíminn er peningar þá er það Jón Ólafsson.

Jón segir bókina ekki vera ævisögu heldur baráttusögu. Sjálfur stóð hann í útgáfustarfsemi í þrjátíu ár en er nú orðinn að útgáfuefni og sagði þá tilfinningu vera undarlega.

"Það er skrýtið að vera kominn hinum megin við borðið," útskýrir hann. Í því augnabliki opnaðist hurðin inn í prentsalinn og þá gafst tækifæri til að líta á gripinn. "Þetta er ég," sagði Jón og benti á þykka doðranta sem biðu eftir því að vera pakkað inn. Yrkisefnið vildi þó ekkert gefa upp um efni bókarinnar og sagðist ætla að tjá sig um efni hennar í dag.

"Ég er víst í fjölmiðlabindindi," útskýrði hann og benti á Pál Valsson, útgáfustjóra hjá Eddu. Hann brosti bara. "Það er allavega búið að bóka þetta," sagði athafnamaðurinn og hló.

Fjölskyldan flettir í gegnum bókina, sem er um fimm hundruð blaðsíður. Hana prýða ljósmyndir sem aldrei hafa komið fyrir almenningssjónir. Helga og Friðrik sjá myndir af sér og skella upp úr. Fjölskyldan skoðar síðan bókina saman og stoppar við sumar síðurnar.

"Þetta er mjög smart og ég er virkilega ánægður með það sem Edda hefur gert. Umgjörðin er æðisleg," sagði Jón. Útgáfustjóranum var augljóslega létt enda veit Jón það af fyrri reynslu að kápan skiptir ekki síður máli en innihaldið. "Það er ekki létt að gera mér til geðs," bætti hann við og brosti. Í dag verður útgáfuteiti haldið og öllum sem nefndir eru á nafn í bókinni hefur verið boðið. Jón vonaðist til að sem flestir sæju sér fært að mæta. "Það er þannig að fyrir mér eru allir jafnir, hvort sem það eru vinir eða fjandmenn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.