Innlent

Sullenberger játar en er ekki ákærður

Í Héraðsdómi Reykjavíkur. Verjendur segja suma ákærða en aðra ekki fyrir sama brot.
Í Héraðsdómi Reykjavíkur. Verjendur segja suma ákærða en aðra ekki fyrir sama brot.

Verjendur sakborninga í Baugsmálinu hafa skriflega krafið embætti Ríkislögreglustjóra skýringa á því hvers vegna Jón Gerald Sullenberger sé ekki ákærður fyrir sömu brot og þrír sakborninga í Baugsmálinu eru ákærðir fyrir. Bréf þessa efnis var lagt fram við þinghald í Héraðsdómi Reykavíkur í gær þar sem taka átti fyrir þær átta ákærur af fjörutíu sem ekki var vísað frá dómi.

Fjórar af ákærunum átta varða innflutning Jóns Ásgeirs, Kristínar og Jóhannesar Jónssonar, föður þeirra, á bifreiðum frá Bandaríkjunum á tilteknu tímabili. Öll neita þau sök í málinu.

"Við teljum að í gögnum málsins liggi fyrir játningar Jóns Geralds um refsiverðan verknað sem hann hefur ekki verið ákærður fyrir en ákærum af sama tilefni verið beint að aðilum sem neita sök," sagði Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, þegar hann gekk úr dómssalnum.

Verjendur spurðu Ríkislögreglustjóra þessarar sömu spurningar, meðal annars í bréfi hinn 30. ágúst síðastliðinn. Í svari saksóknara tveimur vikum síðar segir að sú niðurstaða að ákæra ekki Jón Gerald sé grundvölluð á sjónarmiðum laga um að höfða ekki mál nema það sem komið hafi fram sé nægilegt eða sennilegt til sakfellis yfir viðkomandi.

Fyrir réttri viku sendu verjendur Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra bréf um þetta efni. Þar segir að í sex ákærum af fjörutíu lýsi Jón Gerald refsiverðu athæfi sínu. Hann sé auk þess eini aðilinn sem játað hafi á sig brot. Þrátt fyrir það sé hann ekki ákærður líkt og hinir sem neiti sök í sama máli. Verjendur telja að þetta standist ekki í ljósi þess að ákærur hafi verið gefnar út á hendur öðrum einstaklingum, einkum á grundvelli framburðar Jóns Geralds vegna sömu háttsemi og hann hafi gengist við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×