Innlent

Engar fangaflugsheimildir eru í gildi

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, telur að yfirlýsing íslenskra stjórnvalda frá því í mars 2003 um heimildir Bandaríkjamanna til að flugs í íslenskri lofthelgi og afnot þeirra af Keflavíkurflugvelli í tengslum við stríðið í Írak, sé enn í gildi. "Stríðið í Írak stendur enn og það er athyglisvert hversu víðfeðm þessi yfirlýsing var," segir Össur.

Hann segir að baráttan gegn hermdarverkum standi enn sem og stríðið í Írak. "Í yfirlýsingunni er ekkert um að bannað sé að fara með fanga til tiltekinna landa. Auðvitað gátu íslensk yfirvöld ekki frekar en aðrir búist við því að heimildir af þessum toga yrðu misnotaðar eða alþjóðalög brotin. Eftir stendur að yfirlýsingin er í fullu gildi og hún er þannig orðuð að Bandaríkjamenn geta skotið sér á bak við hana.

"Össur vill að stjórnvöld dragi heimildina til baka hið snarasta og leggi auk þess bann við því að flugvélar, sem vitað sé að notaðar hafi verið til fangaflutninga, fái að lenda á Íslandi eða nota íslenska lofthelgi. Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, segir að nú sé unnið að uppbyggingu í Írak í og fráleitt að ætla að heimild vegna Íraksstríðsins frá 2003 gildi enn. "Svona heimildir hafa verið gefnar út. Ég nefni heimildir vegna Persaflóastríðsins og Kosovo og síðan Írak. Það er alveg útí hött að halda því fram að til séu yfirlýsingar sem gilda að eilífu." Halldór segir að þetta mál snúist um grunsemdir um að menn noti tiltekin fangelsi til að þvinga fanga til sagna og jafnvel pynta þá.

"Slíkt stendst hvorki mannréttindasmáttmála Evrópu né mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Við skulum vona að slíkt hafi ekki átt sér stað. Hafi það átt sér stað kemur sannleikurinn áreiðanlega í ljós. Það ver verið að grennslast fyrir um þetta, bæði á vegum Evrópuráðsins en einnig á vegum Evrópusambandsins. Það hefur jafnvel verið talið að slíkir staðir séu innan lögsögu þess," segir Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×