Innlent

Stjórnvöld ómálefna- leg í gagnrýni sinni

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis segir að upp hafi komið tilvik þar sem hann telur að viðbrögð stjórnvalda séu þess eðlis að þau geti haft áhrif á það hvort almenningur leiti til umboðsmanns Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis segir að upp hafi komið tilvik þar sem hann telur að viðbrögð stjórnvalda séu þess eðlis að þau geti haft áhrif á það hvort almenningur leiti til umboðsmanns Alþingis.

Umboðsmaður Alþingis segir að viðbrögð fyrirsvarsmanna stjórnvalda gagnvart þeim sem leitað hafi til umboðsmanns vegna tiltekinna mála veki hjá sér nokkurn ugg. "Ég hef fyrst og fremst í huga þau tilvik þar sem ég tel að viðbrögð stjórnvalda séu þess eðlis að þau geti haft áhrif á það hvort almenningur, jafnt einstaklingar sem fyrirtæki, leiti til umboðsmanns Alþingis," segir hann. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu frá umboðsmanni um árið 2004.

Hann segir að athugun umboðsmanns Alþingis á máli einstaklings sem beri fram kvörtun hafi þá sérstöðu, til dæmis umfram rekstur dómsmáls, að ákveði umboðsmaður að taka málið til athugunar er það alfarið ákvörðun hans að hverju hún beinist. Honum sé veittur réttur til að krefja stjórnvöld um þær upplýsingar og skriflegu skýringar sem hann þarfnast. Niðurstaða umboðsmanns byggi því á þeim gögnum sem honum eru látin í té. Það sé slæmt ef stjórnvöld svari þeim, sem til umboðsmanns hefur leitað og fengið hefur álit hans, á þann veg að niðurstaða umboðsmanns hafi byggst á takmörkuðum gögnum og ófullnægjandi upplýsingum. Stjórnvöld gagnrýni með öðrum orðum það að umboðsmaður hafi fellt álit án þess að hafa öll gögn í höndum, en það sé einmitt á ábyrgð stjórnvalda að láta honum þau í té.

Þá segir í skýrslunni að þróun í fjölmiðlun hér á landi hafi leitt til þess að umfjöllun fjölmiðla sé persónulegri og leitist þeir gjarnan við í fréttum sínum að tengja hin einstöku mál við nafngreindar persónur. Hann telur að þessi þróun hafi orðið til þess að breyting hafi orðið á viðbrögðum ákveðinna stjórnvalda þegar álit umboðsmanns og aðrar niðurstöður séu birtar opinberlega. Viðbrögð stjórnvalda beinist að því að gæta að ímynd sinni en ekki efni málsins. Sem dæmi um þetta nefnir hann fréttatilkynningar sem stjórnvöld hafi sent í kjölfar álita umboðsmanns, sem sé sjálfsagt að gera, en hafa verði í huga að mál sem umboðsmaður úrskurðar um lúta ekki að hagsmunum umboðsmanns eða persónu hans heldur eigi í hlut einstaklingur eða fyrirtæki sem hefur leitað til hans vegna afskipta eða ákvörðunar stjórnvaldsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×