Innlent

Aðgangur að vatni telst til mannréttinda

Á laugardag var haldin ráðstefna undir yfirskriftinni Vatn fyrir alla. BSRB, Kennarasamband Íslands, Landvernd, MFÍK, Náttúruverndarsamtök Íslands, SÍB og Þjóðkirkjan, sem stóðu að ráðstefnunni, gáfu frá sér sameiginlega ályktun þar sem fram kom að nauðsynlegt væri að fest yrði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns.

Er ekki nóg vatn á Íslandi?

Í yfirlýsingunni kemur fram að þó ekki sé vatnsskortur hér á landi gefi gnótt vatns ekki tilefni til skeytingarleysis. Færa beri lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu þannig að eðlilegt jafnvægi sé við rétt einstaklinga til aðgengis að vatni. Hvernig er vatn öðruvísi en aðrar náttúruauðlindir? Vatn er undirstaða alls lífs. Samtökin sem standa að yfirlýsingunni segja vatn frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnist náttúrulega í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og sé aldrei kyrrt á einum stað, heldur á stöðugri hringrás um heiminn.

Af hverju að setja nýtingu vatns í stjórnarskrá?

Samtökin telja aðgang að vatni grundvallarmannréttindi, líkt og fram kemur í samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur undirgengist. Vegna mikilvægis vatns fyrir þjóð og lífríki landsins sé því nauðsynlegt að festa í stjórnarskrá ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Lög um slíkt þurfi bæði að viðurkenna rétt einstaklinga til vatns og varða verndun vatns og náttúru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×