Innlent

Herinn má fara ef hann vill

Halldór Ásgrímsson
Halldór Ásgrímsson

"Ef Bandaríkjamenn telja að hér þurfi ekki að vera sýnilegar varnir verða þeir að segja það, við munun aldrei neyða þá til að vera hér og við munum heldur ekki styðja þá í að vera hér ef þeir vilja ekki vera hér," sagði Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundi í Kópavogi í gær.

Halldór sagði samskipti þjóðanna hafa verið vinsamleg en viðraði þó lítillega aðra kosti. "Það liggur alveg ljóst fyrir í mínum huga að ef samskiptin við Bandaríkin breytast verðum við að treysta samskiptin við Evrópu og okkar nágrannaríki," sagði hann.

Hann kvaðst vera mjög ósáttur við það hversu hægt miðaði í viðræðum og sagðist ekki bjartsýnn á að þær skýrðust á næstu mánuðum.

Hann sagði skoðanamun milli Íslendinga og áhrifamanna í Bandaríkjastjórn hafa valdið því að málið væri enn í ólestri þó tæp fimm ár væru liðin frá því að samningur þjóðanna rann út.

"Við Íslendingar getum ekki verið sáttir við það að þessi mál séu með þessum hætti mikið lengur og við verðum að gera þá kröfu til Bandaríkjamanna að þeir tali skýrar í þessum málum," sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×