Erlent

Síðasta próf fyrir forsetakjör

Prófkjör fyrir kosningar til öldungadeildarinnar sem haldið verður í Flórída á morgun hefur þegar vakið mun meiri athygli en venja er til með slík prófkjör, sem oftast vekja ekki eftirtekt nema rétt í því ríki sem þau fara fram í. Ástæðan er einföld, prófkjörið er álitið síðasta prófraunin fyrir kosninga- og talningabúnaðinn sem komið var upp eftir klúðrið sem einkenndi talningu atkvæða í Flórída þegar George W. Bush var kjörinn forseti Bandaríkjanna fyrir tæpum fjórum árum. Mannréttindasamtök, verkalýðsfélög og ýmis stjórnmálasamtök hafa sent hundruð manna til að fylgjast með framkvæmd prófkjörsins, að því er fram kemur í dagblaðinu Washington Post. Þar kemur fram að nokkur samtök hafa ákveðið að senda lögfræðinga á staðinn til að vera fólki innan handar ef það lendir í vandræðum með að greiða atkvæði. Í forsetakosningunum árið 2000 var fjölda fólks sem hafði kosningarétt vísað frá kjörstað þar sem það hafði ranglega verið tekið af kjörskrá. Fleiri en nokkru sinni áður hafa greitt atkvæði utan kjörfundar og hafa efasemdir með gagnsemi kosninga- og talningarbúnaðar verið tilgreindar sem ein möguleg ástæða fyrir því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×